Keppnisforritunarfélag Íslands var stofnað þann 25. mars 2017 með það markmið að rækta samfélag keppnisforritara á Íslandi. Félagið stendur að reglulegum fræðslufundum og forritunarkeppnum sem meðlimir geta tekið þátt í. Þar að auki sér félagið um þátttöku Íslands í Ólympíuleikunum í forritun, ásamt tilheyrandi undirbúningi og þjálfun, sem byrjar með Forritunarkeppni grunnskólanna í samstarfi við Tækniskólann, og svo Forritunarkeppni framhaldsskólanna í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.

Aðalfundur

Aðalfundur Keppnisforritunarfélags Íslands verður haldinn 30. janúar næstkomandi, kl. 18:00 í stofu M109 í Háskólanum í Reykjavík. Aðeins þeir félagsmenn sem hafa greitt félagsgjöld seinasta árs hafa atkvæðisrétt (ef þú ert ekki viss um hvort þú hafir greitt eða ekki þá geturðu sent okkur póst), en við minnum á að hver sem er getur gengið í félagið.

Leitast er eftir nýrri stjórn; 1 formaður, 2 meðstjórnendur og 3 varamenn. Félagsmenn sem hafa  áhuga á að bjóða sig fram eru beðnir um að senda póst á núverandi stjórn þar sem fram kemur nafn á frambjóðanda og þær stöður sem boðið er fram í. Einnig biðjum við um að tillögur að lagabreytingum og aðrar ábendingar berist á sama netfang. Frambjóðendur og tillögur að lagabreytingum verða settar hér á vefsíðu félagsins eftir því sem þær berast.

Framboð

Formaður (1 staða)

 • Bjarki Ágúst Guðmundsson

Meðstjórnendur (2 stöður)

 • Arnar Bjarni Arnarson
 • Bernhard Linn Hilmarsson
 • Bjarki Ágúst Guðmundsson
 • Hannes Kr. Hannesson

Varamenn (3 stöður)

 • Arnar Bjarni Arnarson
 • Bernhard Linn Hilmarsson
 • Bjarki Ágúst Guðmundsson
 • Hannes Kr. Hannesson

Dagskrá

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar flutt.
 3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
 4. Lagabreytingar.
 5. Kosning stjórnarmanna.
 6. Kosning skoðunarmanns reikninga.
 7. Ákvörðun félagsgjalds.
 8. Kosning liðsstjóra og varaliðsstjóra Ólympíuliðs Íslands í forritun.
 9. Önnur mál, ef tími leyfir:
  1. Þátttaka Íslands á Ólympíuleikunum í forritun síðastliðið sumar.
  2. Starfsemi félagsins næsta ár.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Unnar Freyr Erlendsson, formaður
Arnar Bjarni Arnarson, meðstjórnandi
Bjarki Ágúst Guðmundsson, meðstjórnandi

Háskólakeppnin í forritun 2018

Háskólakeppnin í forritun 2018 verður haldin í Háskólanum í Reykjavík þann 6. október kl. 9:00 – 14:00, í stofu M201. Boðið verður upp á pizzur í hádeginu. Hvert lið samanstendur af allt að þremur einstaklingum, en leiðbeiningar um skráningu er að finna hér. Skráning lokar 3. október kl. 23:59. Keppnin er skipulögð í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, og er haldin samhliða Norðurlandakeppninni í forritun.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga á forritun, stærðfræði og/eða verkefnalausnum að taka þátt. Keppnin er hugsuð fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna, og er aðal málið að hafa gaman af. Einnig má hafa í huga að því fleiri sem taka þátt í þessari keppni, því fleiri sæti fær Norðvestur-Evrópa í Heimskeppninni í forritun, sem stóreykur líkur Íslands á að komast alla leið!

Hverjir mega taka þátt?

Keppnin er sérstaklega ætluð háskólanemum, sér í lagi nemendum úr Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, en nemendur úr framhaldsskólum eru líka velkomnir. Þeir sem falla ekki undir þessa hópa, en langar að taka þátt, er boðið að hafa samband.

Hvernig fer keppnin fram?

Hvert lið má aðeins nota eina tölvu á meðan keppninni stendur, og þarf liðið að koma með sína eigin tölvu. Liðið fær svo um 10 verkefni, og hefur 5 klukkustundir til að leysa eins mörg af þeim og það getur. Lið leysir verkefni með því að útfæra forrit sem framkvæmir það sem beðið er um í verkefnalýsingu, og skilar kóðanum á yfirferðarþjóninn Kattis. Upplýsingar um hvaða forritunarmál Kattis styður, og leiðbeiningar um hvernig á að skila kóða inn á Kattis, má finna hér.

Hvernig verkefni eru þetta?

Verkefnin eru miserfið, af mismunandi toga, og reyna meðal annars á kunnáttu á forritun, reikniritum og stærðfræði, og beitingu á rökhugsun. Hægt er að skoða dæmi frá gömlum keppnum hér.

Hvernig get ég æft mig?

Hægt að finna ógrynni af verkefnum til að æfa sig á á Open Kattis, en þar má einmitt finna dæmi úr Norðurlandakeppninni í forritun aftur til ársins 2005.

Aðalfundur 2017

Aðalfundur Keppnisforritunarfélags Íslands verður haldinn 1. nóvember næstkomandi, kl. 17:00 í stofu M109 í Háskólanum í Reykjavík. Fundurinn er einungis opinn félagsmönnum, en við minnum á að hver sem er getur gengið í félagið.

Leitast er eftir nýrri stjórn; 1 formaður, 2 meðstjórnendur og 3 varamenn. Félagsmenn sem hafa áhuga á að bjóða sig fram eru beðnir um að senda póst á núverandi stjórn þar sem fram kemur nafn á frambjóðanda og þær stöður sem boðið er fram í. Einnig biðjum við um að tillögur að lagabreytingum og aðrar ábendingar berist á sama netfang. Frambjóðendur og tillögur að lagabreytingum verða settar hér á vefsíðu félagsins eftir því sem þær berast.

Framboð

Formaður (1 staða)
 • Unnar Freyr Erlendsson
Meðstjórnendur (2 stöður)
 • Arnar Bjarni Arnarson
 • Bjarki Ágúst Guðmundsson
Varamenn (3 stöður)
 • Hannes Kr. Hannesson

Tillögur að lagabreytingum

 1. Taka upp skammstöfunina KFFÍ.1. greinFélagið heitir Keppnisforritunarfélag Íslands (KFFÍ).
 2. Ef félaginu er slitið þá renna eignir þess til ICE-TCS.11. greinÁkvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Íslenska stærðfræðafélagsins ICE-TCS, Icelandic Centre of Excellence in Theoretical Computer Science.
 3. Félagar sem borga ekki félagsgjöld eru skráðir úr félaginu.9. greinÁkvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Í lok hvers starfstímabils eru félagar sem ekki hafa borgað félagsgjald þess starfstímabils skráðir úr félaginu.

Dagskrá

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar flutt.
 3. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
 4. Lagabreytingar.
 5. Kosning stjórnarmanna.
 6. Kosning skoðunarmanns reikninga.
 7. Ákvörðun félagsgjalds.
 8. Kosning liðsstjóra og varaliðsstjóra Ólympíuliðs Íslands í forritun.
 9. Önnur mál, ef tími leyfir:
  1. Þátttaka Íslands á Ólympíuleikunum í forritun síðastliðið sumar.
  2. Starfsemi félagsins næsta ár.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Bjarki Ágúst Guðmundsson, formaður
Arnar Bjarni Arnarson, meðstjórnandi
Unnar Freyr Erlendsson, meðstjórnandi

Háskólakeppnin í forritun 2017

Háskólakeppnin í forritun 2017 verður haldin í Háskólanum í Reykjavík þann 7. október kl. 9:00 – 14:00, í stofu M110. Boðið verður upp á pizzur í hádeginu. Hvert lið samanstendur af allt að þremur einstaklingum, en leiðbeiningar um skráningu er að finna hér. Skráning lokar 5. október kl. 16:00. Keppnin er skipulögð í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, og er haldin samhliða Norðurlandakeppninni í forritun.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga á forritun, stærðfræði og/eða verkefnalausnum að taka þátt. Keppnin er hugsuð fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna, og er aðal málið að hafa gaman af. Einnig má hafa í huga að því fleiri sem taka þátt í þessari keppni, því fleiri sæti fær Norðvestur-Evrópa í Heimskeppninni í forritun, sem stóreykur líkur Íslands á að komast alla leið!

Hverjir mega taka þátt?

Keppnin er sérstaklega ætluð háskólanemum, sér í lagi nemendum úr Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, en nemendur úr framhaldsskólum eru líka velkomnir. Þeir sem falla ekki undir þessa hópa, en langar að taka þátt, er boðið að hafa samband.

Hvernig fer keppnin fram?

Hvert lið má aðeins nota eina tölvu á meðan keppninni stendur, og þarf liðið að koma með sína eigin tölvu. Liðið fær svo um 10 verkefni, og hefur 5 klukkustundir til að leysa eins mörg af þeim og það getur. Lið leysir verkefni með því að útfæra forrit sem framkvæmir það sem beðið er um í verkefnalýsingu, og skilar kóðanum á yfirferðarþjóninn Kattis. Upplýsingar um hvaða forritunarmál Kattis styður, og leiðbeiningar um hvernig á að skila kóða inn á Kattis, má finna hér.

Hvernig verkefni eru þetta?

Verkefnin eru miserfið, af mismunandi toga, og reyna meðal annars á kunnáttu á forritun, reikniritum og stærðfræði, og beitingu á rökhugsun. Hægt er að skoða dæmi frá gömlum keppnum hér.

Hvernig get ég æft mig?

Haldin verður æfingakeppni 1. október kl. 9:00 – 14:00, í stofu M201 í Háskólanum í Reykjavík. Boðið verður upp á pizzur í hádeginu. Þar verður farið yfir grunnatriði tengd forritunarkeppnum, og geta keppendur beðið um aðstoð á meðan æfingakeppninni stendur. Þetta verður líka tilvalinn staður til að mæta á ef einstaklingar eru í leit að liðsfélögum.

Einnig er hægt að finna ógrynni af verkefnum til að æfa sig á á Open Kattis, en þar má einmitt finna dæmi úr Norðurlandakeppninni í forritun síðan 2005.

Ísland á Baltnesku Ólympíuleikunum í forritun

Þeir Atli Fannar Franklín og Bernhard Linn Hilmarsson hafa verið valdir til þess að taka þátt fyrir hönd Íslands á Baltnesku Ólympíuleikunum í forritun (BOI), sem verða haldnir 25. – 30. apríl í Björgvin, Noregi. Atli er nemandi í Menntaskólanum á Akureyri en Bernhard er nemandi í Tækniskólanum. Þeir kepptu báðir í Forritunarkeppni framhaldsskólanna og Norrænu Ólympíuleikunum í forritun með góðum árangri. Þar að auki hafa þeir sýnt mikinn dugnað og áhuga á æfingum hingað til.

Atli og Bernhard á æfingu

Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt á BOI og er þetta hugsað sem undirbúningur fyrir Alþjóðlegu Ólympíuleikana í forritun, en þeir verða haldnir í Teheran, Íran í sumar.

Við óskum þeim velgengni í keppninni á sama tíma og við þökkum Íslenskri erfðagreiningu fyrir styrkinn sem gerir okkur kleift að senda þá út.

Dagur 1 – Koma

Drengirnir eru komnir út til Noregs. Á morgun, 26. apríl, verður haldin undirbúningskeppni, þar sem keppendur fá að kynnast umhverfinu sem verður notað í alvöru keppnunum tveimur. Keppnin hefst kl. 8:00 að íslenskum tíma, og verður hægt að fylgjast með henni á boi17-public.kattis.com. Eins og sjá má á stigatöflunni eru 56 keppendur frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Þýskalandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Póllandi og Svíþjóð.

Dagur 2 – Undirbúningur

Í morgun var undirbúningskeppnin haldin. Það voru þrjú dæmi, og má nálgast þau á íslensku hér. Örfáir keppendur leystu öll þrjú dæmin, og um helmingur leysti tvö eða fleiri dæmi. Okkar menn náðu hvor um sig að leysa eitt dæmi. Þá má nefna að Bernhard var með fyrstu mönnum að leysa fyrsta dæmið. Báðir töldu þeir sig eiga meira inni, en á morgun mun fyrsta alvöru keppnin (af tveimur) verða haldin. Eins og undirbúningskeppnin byrjar hún kl. 8:00 að íslenskum tíma, og verður hægt að fylgjast með henni á boi17-public.kattis.com.

Dagur 3 – Fyrri keppnin

Í morgun var fyrsta alvöru keppnin haldin. Það voru þrjú dæmi, og má nálgast þau á íslensku hér. Bernhard byrjaði mjög vel, og þegar tæplega hálftími var liðinn af keppninni var hann hvorki meira né minna en í 1. sæti. Hann dróst þó rólega aftur úr, en var fyrstu þrjá og hálfa tímana af keppninni í medalíusæti (efstu ~5 fá gull, næstu ~10 fá silfur, og svo næstu ~14 fá brons). Þegar hálftími var eftir var hann tveimur sætum frá bronsi, en endaði svo í 34. sæti með 87 stig. Atli átti aðeins erfiðara með að halda í við skarann, og endaði í 44. sæti með 23 stig.

Staðan hjá okkar mönnum í fyrri keppninni

Frá hinum löndunum má nefna að Pólland var með sterka yfirburði, en fimm af sex keppendum frá Póllandi leystu öll dæmin upp á 100 stig. Aðeins einn annar keppandi fékk 100 stig í öllum dæmunum, en það var einn af vinum okkar frá Svíþjóð.

Sól, blíða, 20. stiga hiti og fallegt útsýni þar sem strákarnir eru, í Björgvin

Okkar menn fá þó annan séns til að komast í medalíusæti, en seinni keppnin er á morgun. Eins og hinar keppnirnar byrjar hún kl. 8:00 að íslenskum tíma, og verður hægt að fylgjast með henni á boi17-public.kattis.com.

Farið var yfir lausnir á dæmum eftir keppnina

Dagur 4 – Seinni keppnin

Í morgun var seinni keppnin haldin. Eins og venjulega voru þrjú dæmi, og má nálgast þau á íslensku hér. Dagurinn í dag virtist vera mun þyngri en dagurinn í gær, og á það sérstaklega við hjá okkar mönnum. Bernhard nældi sér í örfá stig í tveimur dæmanna, og endaði með 110 stig í 38. sæti, 80 stigum eða 10 sætum frá bronsmedalíu. Atli náði engum stigum í dag, og endar því með 23 stigin sem hann hafði náð í fyrri keppninni, og hafnar þar með í 49. sæti.

Lokastaðan hjá okkar mönnum

Pólverjarnir voru ekki með eins mikla yfirburði í dag, en enduðu engu að síður með þrjár gullmedalíur. Ein gullmedalía fór svo til Lettlands, en önnur gullmedalía ásamt fyrsta sæti yfir allt fór svo til vina okkar í Svíþjóð, nefnilega hans David Wärn. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju!

Þetta markar lok Baltnesku Ólympíuleikanna í forritun 2017 í Björgvin, Noregi, og vonum við að þetta hafi verið góð æfing fyrir strákana. Næst verður stefnan sett á Alþjóðlegu Ólympíuleikana í forritun, en þeir verða haldnir í Teheran, Íran í lok sumars 2017. Þar mun Bernhard Linn Hilmarsson taka þátt fyrir hönd Íslands.

Stofnfundur haldinn

Stofnfundur félagsins var haldinn í dag, 25. mars 2017, í Háskólanum í Reykjavík. Lög voru samin og eftirfarandi stjórn kosin:

 • Bjarki Ágúst Guðmundsson, formaður
 • Arnar Bjarni Arnarson, meðstjórnandi
 • Unnar Freyr Erlendsson, meðstjórnandi
 • Garðar Andri Sigurðsson, varamaður
 • Hannes Kristján Hannesson, varamaður
 • Hjalti Magnússon, varamaður
Frá vinstri: Hannes, Arnar, Unnar, Bjarki, Garðar, Hjalti