Skip to content
Logo
Keppnisforritunarfélag Íslands
Félag keppnisforritara á Íslandi
GitHubDiscordFacebook

Ísland á Baltnesku Ólympíuleikunum í forritun

Þeir Atli Fannar Franklín og Bernhard Linn Hilmarsson hafa verið valdir til þess að taka þátt fyrir hönd Íslands á Baltnesku Ólympíuleikunum í forritun (BOI), sem verða haldnir 25. – 30. apríl í Björgvin, Noregi. Atli er nemandi í Menntaskólanum á Akureyri en Bernhard er nemandi í Tækniskólanum. Þeir kepptu báðir í Forritunarkeppni framhaldsskólanna og Norrænu Ólympíuleikunum í forritun með góðum árangri. Þar að auki hafa þeir sýnt mikinn dugnað og áhuga á æfingum hingað til.

20170424 170806 cropped
Atli og Bernhard á æfingu

Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt á BOI og er þetta hugsað sem undirbúningur fyrir Alþjóðlegu Ólympíuleikana í forritun, en þeir verða haldnir í Teheran, Íran í sumar.

Við óskum þeim velgengni í keppninni á sama tíma og við þökkum Íslenskri erfðagreiningu fyrir styrkinn sem gerir okkur kleift að senda þá út.

Dagur 1 – Koma

Drengirnir eru komnir út til Noregs. Á morgun, 26. apríl, verður haldin undirbúningskeppni, þar sem keppendur fá að kynnast umhverfinu sem verður notað í alvöru keppnunum tveimur. Keppnin hefst kl. 8:00 að íslenskum tíma, og verður hægt að fylgjast með henni á boi17-public.kattis.com. Eins og sjá má á stigatöflunni eru 56 keppendur frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Þýskalandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi, Póllandi og Svíþjóð.

Dagur 2 – Undirbúningur

Í morgun var undirbúningskeppnin haldin. Það voru þrjú dæmi, og má nálgast þau á íslensku hér. Örfáir keppendur leystu öll þrjú dæmin, og um helmingur leysti tvö eða fleiri dæmi. Okkar menn náðu hvor um sig að leysa eitt dæmi. Þá má nefna að Bernhard var með fyrstu mönnum að leysa fyrsta dæmið. Báðir töldu þeir sig eiga meira inni, en á morgun mun fyrsta alvöru keppnin (af tveimur) verða haldin. Eins og undirbúningskeppnin byrjar hún kl. 8:00 að íslenskum tíma, og verður hægt að fylgjast með henni á boi17-public.kattis.com.

Dagur 3 – Fyrri keppnin

Í morgun var fyrsta alvöru keppnin haldin. Það voru þrjú dæmi, og má nálgast þau á íslensku hér. Bernhard byrjaði mjög vel, og þegar tæplega hálftími var liðinn af keppninni var hann hvorki meira né minna en í 1. sæti. Hann dróst þó rólega aftur úr, en var fyrstu þrjá og hálfa tímana af keppninni í medalíusæti (efstu ~5 fá gull, næstu ~10 fá silfur, og svo næstu ~14 fá brons). Þegar hálftími var eftir var hann tveimur sætum frá bronsi, en endaði svo í 34. sæti með 87 stig. Atli átti aðeins erfiðara með að halda í við skarann, og endaði í 44. sæti með 23 stig.

day1 standings
Staðan hjá okkar mönnum í fyrri keppninni

Frá hinum löndunum má nefna að Pólland var með sterka yfirburði, en fimm af sex keppendum frá Póllandi leystu öll dæmin upp á 100 stig. Aðeins einn annar keppandi fékk 100 stig í öllum dæmunum, en það var einn af vinum okkar frá Svíþjóð.

IMAG0076
Sól, blíða, 20. stiga hiti og fallegt útsýni þar sem strákarnir eru, í Björgvin

Okkar menn fá þó annan séns til að komast í medalíusæti, en seinni keppnin er á morgun. Eins og hinar keppnirnar byrjar hún kl. 8:00 að íslenskum tíma, og verður hægt að fylgjast með henni á boi17-public.kattis.com.

IMAG0071
Farið var yfir lausnir á dæmum eftir keppnina

Dagur 4 – Seinni keppnin

Í morgun var seinni keppnin haldin. Eins og venjulega voru þrjú dæmi, og má nálgast þau á íslensku hér. Dagurinn í dag virtist vera mun þyngri en dagurinn í gær, og á það sérstaklega við hjá okkar mönnum. Bernhard nældi sér í örfá stig í tveimur dæmanna, og endaði með 110 stig í 38. sæti, 80 stigum eða 10 sætum frá bronsmedalíu. Atli náði engum stigum í dag, og endar því með 23 stigin sem hann hafði náð í fyrri keppninni, og hafnar þar með í 49. sæti.

day2 standings
Lokastaðan hjá okkar mönnum

Pólverjarnir voru ekki með eins mikla yfirburði í dag, en enduðu engu að síður með þrjár gullmedalíur. Ein gullmedalía fór svo til Lettlands, en önnur gullmedalía ásamt fyrsta sæti yfir allt fór svo til vina okkar í Svíþjóð, nefnilega hans David Wärn. Við óskum þeim öllum innilega til hamingju!

Þetta markar lok Baltnesku Ólympíuleikanna í forritun 2017 í Björgvin, Noregi, og vonum við að þetta hafi verið góð æfing fyrir strákana. Næst verður stefnan sett á Alþjóðlegu Ólympíuleikana í forritun, en þeir verða haldnir í Teheran, Íran í lok sumars 2017. Þar mun Bernhard Linn Hilmarsson taka þátt fyrir hönd Íslands.