Um félagið
Keppnisforritunarfélag Íslands var stofnað þann 25. mars 2017 með það markmið að rækta samfélag keppnisforritara á Íslandi. Félagið stendur að reglulegum fræðslufundum og forritunarkeppnum sem meðlimir geta tekið þátt í. Þar að auki sér félagið um þátttöku Íslands í Ólympíuleikunum í forritun, ásamt tilheyrandi undirbúningi og þjálfun, sem byrjar með Forritunarkeppni grunnskólanna í samstarfi við Tækniskólann, og svo Forritunarkeppni framhaldsskólanna í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.
Stjórn
Formaður
- Arnar Bjarni Arnarson
Meðstjórnendur
- Atli Fannar Franklín
- Samúel Arnar Hafsteinsson
Varamenn
- Unnar Freyr Erlendsson
- Einar Darri Sveinbjörnsson
- Konráð Elí Sigurgeirsson
Hægt er að hafa samband við stjórn félagsins með því að senda vefpóst á [email protected]
Stjórn þessi var kosin á aðalfundi Keppnisforritunarfélags Íslands 26. september 2024.
Lög
1. grein
Félagið heitir Keppnisforritunarfélag Íslands (KFFÍ).
2. grein
Tilgangur félagsins er:
- Kynna keppnisforritun og rækta samfélag keppnisforritara á Íslandi.
- Efla samskipti keppnisforritara á Íslandi.
- Halda utan um þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum í forritun (International Olympiad in Informatics).
3. grein
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að
- halda reglulega viðburði tengda keppnisforritun,
- halda úti vefsíðu um starf félagsins og keppnisforritun almennt,
- halda úti samskiptavettvangi fyrir keppnisforritara á Íslandi og
- sjá um val á liði fyrir Ólympíuleikana í forritun.
4. grein
Hver sem er getur skráð sig í félagið. Beiðni um inngöngu í félagið skal vera send til stjórnar félagsins, og skal innihalda fullt nafn, kennitölu og netfang umsækjanda. Umsækjandi gerist félagsmaður þegar stjórn hefur samþykkt umsóknina og félagsgjald yfirstandandi starfstímabils hefur verið greitt.
5. grein
Starfstímabil félagsins er 1. ágúst til 31. júlí. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins starfstímabils. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.
6. grein
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. október ár hvert og skal boða til hans með að minnst einnar viku fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum m ála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar flutt.
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
- Lagabreytingar ef við á.
- Kosning stjórnarmanna.
- Kosning skoðunarmanns reikninga.
- Ákvörðun félagsgjalds.
- Kosning liðsstjóra og varaliðsstjóra Ólympíuliðs Íslands í forritun.
- Önnur mál.
7. grein
Stjórn félagsins skal skipuð formanni og 2 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Einnig er heimilt að kjósa allt að 3 varamenn. Fyrst er kosið formann, því næst meðstjórnendur og að lokum varamenn. Einungis er hægt að gegna einni af þessum stöðum. Stjórnarmeðlimir mega ekki vera gjaldgengir keppendur í International Olympiad in Informatics. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til stjórnarfunda eigi síðar en á þriggja mánaða fresti. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
8. grein
Stjórn getur boðað til aukaaðalfundar ef þörf er á. Óski 5 félagsmenn, eða einfaldur meirihluti félagsmanna, þess skriflega, er stjórn skylt að kalla saman aukaaðalfund. Aukaaðalfund skal boða á sama hátt og aðalfund.
9. grein
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega. Í lok hvers starfstímabils eru félagar sem ekki hafa borgað félagsgjald þess starfstímabils skráðir úr félaginu.
10. grein
Reikningsár félagsins er sama og starfstímabil félagsins. Rekstrarafgangur félagsins við ársuppgjör skal renna í félagið sjálft.
11. grein
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til ICE-TCS, Icelandic Centre of Excellence in Theoretical Computer Science.
12. grein
Félagið skal sjá um að kjósa liðsstjóra og varaliðsstjóra fyrir Ólympíulið Íslands í forritun hvers árs, og skal það gert á aðalfundi. Liðsstjóri og varaliðsstjóri þurfa að uppfylla þau skilyrði sem International Olympiad in Informatics setur svokölluðum „team leader“.
13. grein
Félagið skal kjósa háskólakeppnisstjóra á Íslandi fyrir hvert ár, og skal það gert á aðalfundi. Háskólakeppnisstjóri sér um að skipuleggja Forritunarkeppni Háskólanna á Íslandi (FKHÍ) og keppnisstaði á Íslandi fyrir Norðurlandakeppnina í Forritun (NCPC) og verður þá skráður sem “site director” fyrir NCPC, ásamt því að ráðleggja um val á liðum fyrir íslensku háskólana sem taka þátt í Norðvestur-Evrópukeppninni (NWERC).
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Keppnisforritunarfélags Íslands 26. september 2024.