Háskólakeppnin í forritun 2019
— Háskólakeppnin í forritun, Keppnir
Háskólakeppnin í forritun 2019 verður haldin í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 5. október kl. 9:00 – 14:00, í stofu M201. Boðið verður upp á pizzur í hádeginu. Hvert lið samanstendur af allt að þremur einstaklingum, en leiðbeiningar um skráningu er að finna hér. Skráning lokar 2. október kl. 23:59. Keppnin er skipulögð í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, og er haldin samhliða Norðurlandakeppninni í forritun.
Við hvetjum alla sem hafa áhuga á forritun, stærðfræði og/eða verkefnalausnum að taka þátt. Keppnin er hugsuð fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna, og er aðal málið að hafa gaman af. Einnig má hafa í huga að því fleiri sem taka þátt í þessari keppni, því fleiri sæti fær Norðvestur-Evrópa í Heimskeppninni í forritun, sem stóreykur líkur Íslands á að komast alla leið!
Hverjir mega taka þátt?
Keppnin er sérstaklega ætluð háskólanemum, sér í lagi nemendum úr Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, en nemendur úr framhaldsskólum eru líka velkomnir. Þeir sem falla ekki undir þessa hópa, en langar að taka þátt, er boðið að hafa samband.
Hvernig fer keppnin fram?
Hvert lið má aðeins nota eina tölvu á meðan keppninni stendur, og þarf liðið að koma með sína eigin tölvu. Liðið fær svo um 10 verkefni, og hefur 5 klukkustundir til að leysa eins mörg af þeim og það getur. Lið leysir verkefni með því að útfæra forrit sem framkvæmir það sem beðið er um í verkefnalýsingu, og skilar kóðanum á yfirferðarþjóninn Kattis. Upplýsingar um hvaða forritunarmál Kattis styður, og leiðbeiningar um hvernig á að skila kóða inn á Kattis, má finna hér.
Hvernig verkefni eru þetta?
Verkefnin eru miserfið, af mismunandi toga, og reyna meðal annars á kunnáttu á forritun, reikniritum og stærðfræði, og beitingu á rökhugsun. Hægt er að skoða dæmi frá gömlum keppnum hér.
Hvernig get ég æft mig?
Laugardaginn 28. september verður haldin undirbúningskeppni á Kattis.
Hægt er að finna ógrynni af verkefnum til að æfa sig á á Open Kattis, en þar má einmitt finna dæmi úr Norðurlandakeppninni í forritun aftur til ársins 2005.